52 augnablik er örsagnasafn eftir Börk Sigurbjörnsson. Sögurnar lýsa augnabliki í hinu daglega lífi, svipta oft hulunni af sérkennilegum sögupersónum eða áleitnum atvikum.
Safnið er afrakstur árslangs verkefnis þar sem höfundurinn birti myndskreytta örsögu í hverri viku út árið 2017. Hver saga var birt á íslensku, ensku og spænsku.
„Þetta var annasamt ár og einkenndist á köflum af streitu undir álaginu af því að þurfa að töfra fram sögu í hverri viku, ásamt tveimur þýðingum og myndskreytingu. Öll þessi vinna var viðbót við heilan vinnudag. Það skiptust á skin og skúrir. Sumar vikurnar voru rólegar þar sem ég hafði sögur tilbúnar til birtingar fjórar til fimm vikur fram í tímann. Hins vegar voru einnig helgar þar sem ég rembdist eins og rjúpan við staurinn við að láta mér detta í hug sögu fyrir komandi viku. Verkefnið tók mig svo sannarlega út fyrir þægindarammann en var samt sem áður stórskemmtileg reynsla."