Lundúnaborg á síðari hluta 19. aldar iðar af lífi og nýjum hugmyndum. Hr. Verloc rekur litla búð í Soho-hverfinu. Þar býr hann ásamt konu sinni, Winnie, vangefnum bróður hennar, Stevie, og gamalli móður þeirra. Hr. Verloc er ekki allur þar sem hann er séður. En hann ofmetur eigin klókindi og sogast inn í atburðarás sem hann hefur enga stjórn á. Við sögu koma stjórnleysingjar af ýmsu tagi, hryðjuverkamenn og háttsettir stjórnarerindrekar, lögregluforingjar og stjórnmálamenn ásamt þekktri samkvæmisdömu.
Leynierindrekinn er eitt kunnasta verk pólska rithöfundarins Josephs Conrad (1857–1924) sem skrifaði á ensku og varð einn af risum enskra bókmennta. Í þessari áhrifamiklu skáldsögu nýtur kaldhæðni Conrads sín vel og sjaldan er persónusköpun hans meira sannfærandi.