Cecilia Gaathe býr í Perlunni, gistiheimili í Skútuflóa. Með vinum sínum, Leo, Une og hundinum Egon kemst hún að því að dularfullir einstaklingar búi á virðulega gistiheimilinu sem pabbi hennar á og rekur. Tengjast þessir dularfullu menn dána manninum sem finnst á ströndinni?
Vinir okkar taka til sinna ráða og upplýsa flókna glæpi sem tengjast bæði dularfullum einstaklingum, skipsskaða, miklum peningum og ekki síst sérkennilegri salamöndru.
Clue er enska og þýðir vísbending eða spor til að leysa gátu. Þar að auki er CLUE sett saman úr upphafsstöfum í nöfnum aðalpersónanna fjögurra í bókaflokknum: Cecilia, Leo, Une og Egon.
Jørn Lier Horst er lögreglumaður og rithöfundur. Hann starfar sem rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Vestfold og býr í Stavern. Horst er einn fremsti höfundur norskra sakamálasagna sem ætlaðar eru fullorðnum. Salamöndrugátan er fyrsta bókin í sakamálabókaflokknum CLUE.